Hlaup eins og að byggja upp fyrirtæki

Bala Kamallakharan, fjárfestir og stofnandi Startup Iceland. Hann líkir hlaupum …
Bala Kamallakharan, fjárfestir og stofnandi Startup Iceland. Hann líkir hlaupum við að stofna fyrirtæki og koma því á legg. Styrmir Kári

Uppbygging fyrirtækja er ekki ósvipuð maraþonhlaupi þar sem hver kílómetri er tekinn í einu með þeim sársauka og mótlæti sem fylgir. Þetta segir Bala Kamallakharan, fjárfestir og stofnandi Startup Iceland. Í gær hljóp hann maraþonið í Boston, en þetta var í áttunda skipti sem hann fór heilt maraþon. Hann segir hlaup lærdómsrík fyrir þá sem byggja upp eigin fyrirtæki og ráðleggur frumkvöðlum að fara í gegnum slíka raun.

Lítið hlaupið síðustu fimm ár

Bala hefur verið sýnilegur í íslensku viðskiptalífi upp á síðkastið, en hann er meðal annars einn þeirra sem kemur að uppbyggingu nýs fimm stjörnu hótels við Hörpu og hefur byggt upp fyrirtækið GreenQloud. Þá hefur hann fjárfest í nokkrum sprotafyrirtækjum og stendur fyrir frumkvöðlaráðstefnunni Startup Iceland.

Hann segir að lítill tími hafi gefist í hlaup undanfarin ár meðfram öllum verkefnunum, en nú þegar hreyfing sé komin á hlutina í Reykjavík hafi honum þótt tímabært að fara aftur út að hlaupa. Áður en hann fór til Boston hafði Bala hlaupið sjö maraþonhlaup, en ekkert á síðustu fimm árum. Hann segist reyndar hafa tekið þátt í minni hlaupum og t.d. farið tvisvar 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni síðustu ár.

Miklar tilfinningar í Boston

Í gær var eitt ár liðið frá sprengjuárás sem gerð var við Boston-maraþonið í fyrra. Bala segir að það hafi verið miklar tilfinningar í loftinu, en að það hafi verið æðislegt að taka þátt í hlaupinu. Segir hann að nánast öll borgin hafi verið viðstödd hlaupið, en mörg hundruð þúsund manns fylgdust með hlaupinu á hliðarlínunni. Tími Bala var 3 klukkustundir og 56 mínútur. Hann segist hafa stefnt á 3 klukkutíma og 30 mínútur, en að hann sé sáttur að hafa klárað það undir fjórum klukkustundum.

Kenna þér að gefast ekki upp

Í mörg ár hefur það verið vinsælt í fjármálaheiminum hér á landi að stunda hlaup. Bala segir að það sé mjög skiljanlegt, því fyrir utan hreyfinguna þá kenni hlaup manni mikið. „Það sem hlaup kenna þér er að gerfast ekki upp. Líkaminn byrjar að gefa eftir, en andlega hliðin þarf að vera sterk til að komast í gegnum sársaukann. Ég held að þetta sé góður lærdómur og ráðlegg öllum frumkvöðlum að fara í hlaup,“ segir hann.

Bala segir hlaup vera eins og að byggja upp fyrirtæki „Það ganga ekki allir hlutir eftir, en þú þarft samt sem áður að sigrast á þeim og fara í gegnum þá einn dag í einu. Alveg eins og í maraþoni, einn kílómeter í einu,“ segir Bala og bætir við að hlaupin séu sársaukafull, en þess virði þegar markmiðinu er náð.

Rúmlega 36 þúsund manns hlupu í Boston í gær. Þar …
Rúmlega 36 þúsund manns hlupu í Boston í gær. Þar á meðal voru vel á fjórða tug Íslendinga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK